Virk – starfsendurhæfing
Við gerð kjarasamninga árið 2008 var undirritað samkomulag milli ASÍ og SA um starfsendurhæfingarsjóð. Sjóðnum er ætlað það hlutverk að draga markvisst úr líkum á því að launafólk hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku, með aukinni virkni, eflingu endurhæfingar og öðrum úrræðum.
Meginverkefni Starfsendurhæfingarsjóðs eru þríþætt:
- 1. Að skipuleggja og hafa umsjón með störfum ráðgjafa hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga. Þeirra hlutverk er að aðstoða einstaklinga við að viðhalda og efla virkni til vinnu
- 2. Að greiða fyrir ráðgjöf ýmissa fagaðila vegna einstaklingsbundinna áætlana um endurhæfingu
- 3. Að greiða fyrir starfsendurhæfingarúrræði sem ekki eru greidd af almennri heilbrigðisþjónustu
Önnur verkefni Starfsendurhæfingarsjóðs eru:
- Að stuðla að aukinni fjölbreytni og framboði úrræða í starfsendurhæfingu
- Að stuðla að samstarfi aðila sem koma að starfsendurhæfingu
- Að hafa áhrif á viðhorf og athafnir í samfélaginu og stuðla að aukinni virkni starfsmanna
- Að styðja við rannsóknir og þróunarvinnu á sviði starfsendurhæfingar
Hvað getur Starfsendurhæfingarsjóður gert fyrir þig?
Ef starfshæfni þín er skert eða henni er ógnað vegna heilsubrests þá getur þú leitað aðstoðar hjá ráðgjöfum sjúkrasjóða stéttarfélaga um allt land. Þessir ráðgjafar eru sérhæfðir í að aðstoða einstaklinga við að efla færni sína og vinnugetu. Þeir hafa einnig aðgang að hópi ólíkra sérfræðinga og fjölbreyttri þjónustu.
Sem dæmi um slíka þjónustu má nefna:
- Ráðgjöf og hvatning sem tekur mið af aðstæðum hvers og eins
- Mat á starfshæfni sem tekur mið af heilsufarslegum jafnt sem félagslegum þáttum
- Aðstoð við gerð og eftirfylgni einstaklingsbundinnar áætlunar
- Leiðbeiningar um réttindi, greiðslur og fjölbreytta þjónustu
- Aðstoð frá sérfræðingum, svo sem sálfræðingum, iðjuþjálfum, sjúkraþjálfurum, læknum, félagsráðgjöfum, náms- og starfsráðgjöfum og fleirum
- Fræðslu og ráðgjöf þar sem einstaklingar, atvinnurekendur og ýmsir fagaðilar vinna saman að því að auka starfshæfnina.
Hvert á að leita?
Sjúkrasjóður Byggiðnar hefur gengið frá samstarfssamningi við Virk starfsendurhæfingarsjóð. Samningurinn tryggir öllum félögum Byggiðnar þjónustu starfsmanna Virk.
Á Eyjafjarðarsvæðinu eru fjórir ráðgjafar sem sinna öllum stéttarfélögum á svæðinu. Ráðgjafarnir eru með aðsetur í Skipagötu 14, annari hæð og er síminn hjá þeim er 460-3600.
Á höfuðborgarsvæðinu tveir ráðgjafar sem sinna félagsmönnum BYGGIÐNAR. Ráðgjafar eru með skrifstofu að Stórhöfða 31. sími 540-0100.
Einnig er hægt að hafa samband beint við Virk Starfsendurhæfingarsjóð í síma 535-5700
Hverjir eiga rétt á þjónustu?
Einstaklingur á rétt á þjónustu sem er skipulögð og fjármögnuð af Starfsendurhæfingarsjóði ef starfshæfni hans er skert eða henni er ógnað vegna heilsubrests. Að auki þarf að uppfylla annað eftirfarandi skilyrða:
- Atvinnurekandi hefur greitt kjarasamningsbundið gjald til Starfsendurhæfingarsjóðs fyrir einstaklinginn.
- Einstaklingur er örorkulífeyrisþegi í lífeyrissjóði sem hefur samning við Starfsendurhæfingarsjóð.
- Áhersla er lögð á að koma snemma að málum og viðhalda vinnusambandi einstaklinga með virkni og öðrum úrræðum.
Gott samstarf
Starfsendurhæfingarsjóður leggur áherslu á að eiga gott samstarf við atvinnurekendur um allt land – samstarf sem miðar að því að auka starfshæfni fólks á vinnumarkaði og styrkja þannig atvinnulíf og samfélag.
Upplýsingar og aðstoð
Atvinnurekendur geta leitað upplýsinga hjá ráðgjöfum sjúkrasjóða eða sérfræðingum Starfsendurhæfingarsjóðs um úrræði, vegna starfsmanna með skerta vinnugetu eða langvinn veikindi. Atvinnurekendur geta einnig bent starfsmönnum sínum á að hafa samband við ráðgjafa hjá sjúkrasjóði ef um er að ræða skerta vinnugetu.
Starfsmenn Starfsendurhæfingarsjóðs fara með allar upplýsingar um einstaklinga sem trúnaðarmál og í samræmi við ákvæði laga og reglna um persónuvernd. Strangar öryggisreglur gilda um öll vinnuferli, upplýsingaöflun, meðhöndlun og vistun gagna.
Áheimasíðu Virk er að finna margar reynslusögur þeirra sem hafa leitað til sjóðsins. Flestar þeirra segja meira en þúsund orð um það mikla starf sem fram fer hjá sjóðnum og það gagn sem hann hefur gert nú þegar. Sjá hér.
Allar nánari upplýsingar er að finna á virk.is og hjá starfsmönnum Byggiðnar í síma 540-0100.
Grein um Starfsendurhæfingarsjóð eftir Vigdísi Jónsdóttur framkvæmdastjóra sjóðsins.