Trúnaðarmenn stéttarfélaganna
Hvað er trúnaðarmaður?
Þegar rætt er um trúnaðarmann er oftast átt við trúnaðarmann í merkingu laga nr. 80/1938. Í greinargerð laganna frá 1938 segir að með ákvæðinu (þá 10.gr. nú 9.gr) sé „… stéttarfélögum heimilað að skipa sér trúnaðarmenn á vinnustöðum úr hópi vinnandi manna, er gæti þess að haldnir séu samningar …“ Hann er með öðrum orðum fulltrúi stéttarfélaganna á vinnustaðnum.
Meginhlutverk trúnaðarmanns er að gæta þess að kjarasamningar stéttarfélagsins séu haldnir á vinnustaðnum. Verkamenn skuli snúa sér til trúnaðarmanns með umkvartanir sínar og trúnaðarmanni ber að sinna þeim þegar í stað.
Byggiðn beinir því til félagsmanna að þeir hafi samband við félagið ef trúnaðarmaður er ekki starfandi á þeim vinnustað sem þeir vinna á. Félagið getur þá veitt ráðgjöf eða aðstoðað við undirbúning og kosningu trúnaðarmanns.
Ef starfsmenn kjósa trúnaðarmann án aðkomu Byggiðnar þurfa þeir að tilkynna félaginu um kjörið. Ástæða þess er að Byggiðn stendur fyrir trúnaðarmannafræðslu auk þess sem félagið þarf tilkynna viðkomandi atvinnurekanda um kosninguna svo trúnaðarmaður njóti verndar samkvæmt lögum og kjarasamningum.
—
Um trúnaðarmenn í kjarasamningi milli Samiðnar og SA
Fjallað er um trúnaðarmenn í aðalkjarasamningum. Kafli 5 í kjarasamningi Samiðnar og SA fjallar um fyrirtækjaþátt kjarasamninga. Í kafla 5.5 segir:
„Trúnaðarmenn stéttarfélags skulu vera í forsvari fyrir starfsmenn í viðræðum við stjórnendur fyrirtækisins. Fulltrúi viðkomandi stéttarfélags hefur fulla heimild til setu í samninganefnd ef óskað er. Trúnaðarmanni skal heimilt að láta fara fram kosningu um tvo til fimm menn til viðbótar í samninganefnd eftir fjölda starfsmanna og mynda þeir þá sameiginlega samninganefnd.
Trúnaðarmanni og kjörnum fulltrúum í samninganefnd skal tryggður eðlilegur tími til að sinna undirbúningi og samningsgerð í vinnutíma. Ennfremur skulu þeir njóta sérstakrar verndar í starfi og óheimilt að láta þá gjalda starfa sinna í samninganefnd. Þannig er óheimilt að segja þeim upp störfum vegna starfa þeirra í samninganefnd.
Á vinnustöðum þar sem trúnaðarmenn eru í tveimur stéttarfélögum eða fleiri, skulu þeir koma sameiginlega fram fyrir hönd starfsmanna í þeim tilvikum að fyrirtækjasamningurinn hafi áhrif á stöðu þeirra. Við þessar aðstæður skal þess gætt að fulltrúi fyrir allar hlutaðeigandi starfsgreinar taki þátt í viðræðum og það eins þótt samninganefndin kunni að stækka af þeim sökum.
Þar sem trúnaðarmenn hafa ekki verið skipaðir, getur hlutaðeigandi stéttarfélag starfsmanna beitt sér fyrir kosningu samninganefndar.“
—
Upplýsingamiðlun
Í kafla 5.6 er fjallað um upplýsingamiðlun. Þar segir að áður en gengið er til gerðar fyrirtækjasamnings skuli stjórnendur upplýsa trúnaðarmenn og aðra í samninganefnd um afkomu framtíðarhorfur og starfsmannastefnu fyrirtækisins.
„Trúnaðarmaður á rétt á upplýsingum um launagreiðslur á þeim vinnustað sem hann er fulltrúi fyrir að því marki sem nauðsynlegt er til að framfylgja ákvæðum fyrirtækjasamningsins. Á gildistíma fyrirtækjasamnings skulu trúnaðarmenn upplýstir um framangreind atriði og áherslur í rekstri tvisvar á ári. Þeir skulu gæta þagmælsku um þessar upplýsingar að því marki sem þær eru ekki til opinberrar umfjöllunar. Einungis er skylt að veita upplýsingar að því marki sem nauðsynlegt er vegna ákvæða fyrirtækjasamnings. Samningur, sem gerður er á grundvelli þessa kafla, skal vera aðgengilegur starfsmönnum hlutaðeigandi fyrirtækis. Óheimilt er upplýsa óviðkomandi um efni hans.“
—
Vernd trúnaðarmanna
Í umræddum kjarasamningi er einnig að finna bókun um vernd þeirra sem gegna trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélög.
„Samningsaðilar eru sammála um að starfsmenn sem gegna trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélag sitt með setu í stjórn, samninganefnd eða trúnaðarráði, og eru í samskiptum við vinnuveitanda sinn vegna þeirra trúnaðarstarfa, verði ekki látnir gjalda þeirra trúnaðarstarfa sbr. 4. gr. lag um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.“
—
Ýmsar upplýsingar um trúnaðarmenn
Á vinnuréttarvef ASÍ er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um trúnaðarmenn stéttarfélaga. Hér fyrir neðan eru gagnlegir hlekkir í því sambandi.
Skilgreining hugtaksins trúnaðarmaður
Val og tilkynning trúnaðarmanna
—
Orðakista ASÍ
ASÍ hefur hannað og sett í loftið app sem heitir Orðakista ASÍ – OK. Orðasafnið er ætlað trúnaðarmönnum stéttarfélaga og erlendum félagsmönnum. Appið þýðir orð tengd íslenskum vinnumarkaði. Um er að ræða app sem þýðir orð tengd íslenskum vinnumarkaði. Allt efni er fengið úr kjarasamningum og öðru útgefnu efni sem tengist vinnumarkaði með beinum hætti. Lögð var áhersla á forrit sem væri einfalt og fljótlegt í notkun. Þegar orð er slegið inn birtast allar myndir þess sem finnast í gögnunum, ásamt þýðingu og setningadæmum. Smáforritið er aðgengilegt fyrir öll snjalltæki, bæði Android og IOS en hægt er að sækja það á Google Play Store og App Store Apple.
Hér má sjá svo hvernig maður notar appið, á íslensku, ensku og pólsku.