Stóra-Hof

BYGGIÐN á jörðina Stóra Hof í Gnúpverjahreppi. Þar hefur félagið komið sér vel fyrir og jörðin stendur félagsmönnum opin til afnota sem hér segir:

Lóðir

Félagið leigir lóðir til félagsmanna undir sumarbústaði. Lóðirnar eru á bilinu 5.500 til 7.000 m². Leigutími er 70 ár og greiðir félagsmaður grunngjald í upphafi og hefur til þess 5 ár frá því hann fær lóð úthlutaðri. Það gjald er nú (okt. 2023) 1.110.000 kr. Síðan er hófleg árlegt leigugjald. Nánari upplýsingar um lóðir, reglur um stærð húsa sem byggja má og aðra skilmála geta áhugasamir nálgast á skrifstofu félagsins í Reykjavík. Skipulag og skilmálar að Stóra-Hofi.

Tjaldsvæði

Félagið hefur látið útbúa tjaldsvæði með rafmagni sem opið er félagsmönnum, munið að hafa félagsskírteinið með. Þar er góð hreinlætisaðstaða. Við tjaldsvæðið eru leiktæki fyrir börn, sparkvöllur og níu holu frisbí gólfvöllur. Tilvalið að koma við þegar ferðast er um suðurland. Einnig er slegin ein braut fyrir golfáhugamenn til að æfa sig á.

Skemman

Á jörðinni er 200m² skemma sem gerð hefur verið upp og nýtist í dag sem samkomuhús. Skemmuna geta félagsmenn fengið leigða undir samkomur og hafa félagsmenn og vinnustaðafélög haldið þar samkomur auk þess að fá leigt hluta af tjaldsvæðinu. Stutt er á milli tjaldsvæðis og skemmu. Í skemmunni er einnig haldið messukaffi og kvöldskemmtun á jónsmessuhátíð félagsins.

Félagsbústaðir

Félagið á tvo bústaði á jörðinni. Gamla íbúðarhúsið var gert upp og er í dag notað sem orlofsbústaður. Húsið er um 130m² og allt hið glæsilegasta. Félagið byggði síðan 90m² hús sem tekið var í notkun árið 2006. Húsin eru leigð út yfir sumarmánuðina skv. leigukerfi félagsins en utan sumartímabilsins geta félagsmenn leigt beint frá heimasíðu okkar eða hringt á skrifstofuna. Sjá nánar á orlofsvef BYGGIÐNAR.

Jörðin Stóra Hof er í mynni Þjórsárdals. Hún er í fjögurra kílómetra fjarlægð frá byggðakjarnanum Árnesi en þar er verslun og sundlaug. Ef fólk vill vera miðsvæðis og skoða uppsveitir Árnessýslu eða virkjanasvæðin er tilvalið að gista á Stóra Hofi. Svæði þetta er uppfullt af náttúruperlum og sögustöðum. Allar virkjanir á suðurlandi eru innan seilingar, Gullfoss, Geysir, Flúðir og Árnesið sjálft í Þjórsá sem liggur við jörðina.

Upphafseigandi jarðarinnar er líklega Þrándur mjöksiglandi en hann nam land skv. Landnámu milli Þjórsár og Laxár og upp til Kálfár og Sandlækjar. Á jörðinni er kirkjugarður og fram eftir öldum var kirkja á jörðinni. Fyrstu heimildir um kirkur er frá árinu 1198 en þá segir að kirkjan á Hofi sé helguð Maríu Drottningu og Pétri Postula og til eigna hennar teljist Skammbeinstaðaland en sú jörð er enn í eigu Stóra Hofs.

Hér fyrir neðan er hægt að sækja sér yfirlitskortin, 1, 2 og 3 sem eru myndirnar vinstramegin á síðunni með því að smelli á línurnar hér fyrir neðan. Einnig skýrslu af fornleifarannsóknum sem gerðar voru á Stóra Hofi í nóvember 2008.

Fornleifar

Fornleifar2

Fornleifaskráning

Kort 3 Hofskot

StoraHof yfirlit