Lög félagsins

1. KAFLI. NAFN FÉLAGSINS OG TILGANGUR

1. Grein
Félagið heitir BYGGIÐN – Félag byggingamanna.

Félagssvæðið nær yfir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Garðabæjar, Kópavogskaupstaðar, Álftanes, Seltjarnarnesskaupstaðar, Mosfellsbæjar og Kjósarsýslu.
Einnig Akureyri og Eyjafjörður, sem nær frá og með Grýtubakkahreppi að austan, til og með Fjallabyggð að vestan, ásamt Hrísey og Grímsey.

Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík

Félagið er aðili að Samiðn, Sambandi iðnfélaga og ASÍ.

2. grein
Tilgangur félagsins er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna svo sem með því að :
a) Semja um kaup og kjör þeirra, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á lagalegan og samningsbundinn rétt þeirra.
c) Aðstoða félagsmenn í atvinnuleit ef þeir óska þess.
d) Stuðla að bættri verkmenntun og tryggja eftir megni að félagsmenn kunni starf sitt sem best og hafi sem víðtækasta þekkingu á öllu sem að iðn þeirra lýtur.
e) Bæta iðnlöggjöfina og vera á verði um að réttindi þau, sem hún veitir lærðum iðnaðarmönnum og iðnnemum, verði ekki skert.

2. KAFLI. INNTÖKUSKILYRÐI OG ÚRSAGNIR

3. grein
Inngöngu í félagið geta þeir fengið sem:
a) Hafa sveinsbréf í húsa-, húsgagna-, skipasmíði, húsgagnabólstrun, málaraiðn, múraraiðn, pípulögnum og veggfóðrun eða löggilt iðnbréf, útgefið samkvæmt iðnaðarlögum.
b) Stunda iðnnám í þeim iðngreinum sem upp eru taldar í a. lið hér að samkvæmt lögum um iðnfræðslu.
c) Starfsmenn sem hafa amk. eins árs menntun í byggingariðnaði og með staðfest starfsréttindi því til staðfestingar

4. grein
Inntökubeiðni skal vera skrifleg og rituð á þar til gerð eyðublöð sem liggja frammi á skrifstofum félagsins.
Inntökubeiðninni skal fylgja sveinsbréf, iðnbréf, staðfesting skóla um skemmra nám eða námssamningur og mynd af umsækjanda.
Þeir sem greitt hafa til félagsins í 6 mánuði teljast aukafélagar þó þeir hafi ekki sótt um inngöngu í félagið. Aukafélagar hafa sömu réttindi og fullgildir félagsmenn en njóta ekki atkvæðisréttar eða kjörgengis.

5. Grein
Séu skilyrði samkvæmt 3. gr. uppfyllt skal stjórnin taka umsækjanda í félagið.

Við inngöngu í félagið öðlast umsækjendur öll félagsréttindi, samkvæmt kjarasamningum sem og lögum og reglugerðum sjóða félagsins.

6. grein
Félagsgjöld greiðir hver og einn þar til hann hefur sagt sig löglega úr félaginu.

Úrsögn skal vera skrifleg og afhent formanni, eða skrifstofum félagsins.

Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst eða ákvörðun um vinnustöðvun tekin af félaginu eða trúnaðarráði og þar til vinnustöðvun hefir verið formlega aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi sem lagt hefir niður vinnu vegna deilu.

3. KAFLI. UM RÉTTINDI FÉLAGSMANNA OG SKYLDUR,
RÉTTINDAMISSI OG BROTTREKSTUR

7. grein
Réttindi félagsmanna eru:
a) Forgangur til starfa í samræmi við starfsréttindi, kjarasamninga og lög.
b) Réttindi sem lög, kjarasamningar og reglugerðir sjóða félagsins kveða á um.
c) Málfrelsi, atkvæðisréttur, kjörgengi og tillöguréttur á fundum félagsins, samkvæmt lögum þess og fundarsköpum.
d) Þjónusta og aðstoð félagsins við að ná fram félagslegum og kjarasamningsbundnum réttindum.

8. grein.
Skyldur félagsmanna eru að:
a) Hlýða lögum félagsins, fundarsamþykktum og samningum.
b) Greiða félagsgjöld.
c) Gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið. Þó getur starfandi stjórnarmaður, sem hefur verið 2 ár eða lengur í stjórn samfleytt, skorast undan stjórnarstörfum.
d) Vinna af heilindum í þágu félagsins og gæta trúnaðar gagnvart félagsstjórn.
e) Að stuðla að því að ófélagsbundnir menn gangi í félagið
f) Tilkynna félaginu brot á lögum og samþykktum þess.

9. grein
Þó félagsmaður stundi aðra atvinnu en í byggingar- og tréiðnaði um stundarsakir, eða allt að einu ári, greiðir hann fullt gjald til félagsins að teknu tilliti til ákvæða 8. greinar.
Félagsmanni sem, vegna sérþekkingar sinnar, er ráðinn til starfa sem félagið gerir ekki kjarasamning um er heimilt að eiga aðild að félaginu.
Undanþegnir þessu ákvæði eru þeir menn sem vinna í þágu félagsins eða samtaka sem félagið er aðili að, enda greiði þeir sömu gjöld og aðrir fullgildir félagsmenn.

10. grein
Gerist félagsmaður brotlegur við lög félagsins eða samþykktir, er stjórn heimilt að beita refsiákvæðum í samræmi við alvarleika brots. Þau eru:
a) Áminning.
b) Svipting tillöguréttar, réttar til fundarsetu og réttar til að gegna trúnaðarstörfum í þágu félagsins um tiltekinn tíma.
c) Brottvikning úr félaginu, tímabundið eða varanlega ef sakir eru miklar.

Ákvörðun félagsstjórnarinnar um refsingu má skjóta til félagsfundar, sem hefir endanlegt úrskurðarvald og er bindandi fyrir alla félagsmenn. Atkvæðagreiðsla um refsingu skal vera skrifleg. Heimilt er viðkomandi félagsmanni að gera grein fyrir máli sínu á félagsfundi.

Áfrýja má niðurstöðu félagsfundar til miðstjórnar Samiðnar, sambands iðnfélaga.

11. grein
Eigi félagið í verkfalli, sem löglega hefur verið boðað til, ber hverjum félagsmanni að leggja skilyrðislaust niður alla vinnu í byggingar- og tréiðnaði, sem hann þiggur laun fyrir hjá öðrum, nema til komi sérstakt leyfi félagsstjórnar.
Verði félagsmaður uppvís að broti gegn þessari grein er stjórn félagsins heimilt að beita refsiákvæðum samkvæmt 10. grein.

12. grein
Óheimilt er félagsmönnum að hefja vinnu þar sem félagsmanni hefur verið vikið úr verki, nema þær ástæður liggi fyrir, sem stjórn félagsins tekur gildar.
Nú leggur félagsmaður niður vinnu eftir beiðni stjórnar, ber þá félaginu að aðstoða hann við að komast í vinnu á ný.

13. grein
Félagsgjald skal vera ákveðinn hundraðshluti af heildarlaunum félagsmanns. Aðalfundur ákveður þann hluta hverju sinni og hvort sett sé lágmark og hámark á félagsgjald.

Skuldi félagsmaður lögboðin gjöld til félagsins fyrir 6 mánuði eða meira, þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir, getur stjórn félagsins falið lögfræðingi innheimtu skuldarinnar með áföllnum kostnaði.

Skuldi félagsmaður félagsgjöld fyrir tvö ár eða meira getur stjórn félagsins fellt hann af félagaskrá.

Heimilt er að gefa félagsgjald eftir í eftirfarandi tilvikum:
a) Þegar félagsmaður er veikur og nýtur þess vegna bóta úr sjúkrasjóði félagsins.
b) Þegar félagsmaður er öryrki, en bætur frá Tryggingastofnun eða ellilífeyrir mynda ekki stofn til félagsgjalds.
c) Þegar félagsmaður er atvinnulaus og á skrá hjá vinnumiðlun.
e) Stundi félagsmaður nám sem skerðir dagvinnu samkvæmt vottorði frá námsstofnun, má fella niður félagsgjald fyrir þann tíma skerðingin nemur.

4. KAFLI. STJÓRN, TRÚNAÐARRÁÐ, ENDURSKOÐENDUR, DEILDIR, NEFNDIR OG KOSNINGAR

14. grein
Stjórn félagsins skipa sjö menn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og þrír meðstjórnendur kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn þannig að þrír stjórnarmenn eru kosnir annað árið og er formaður þar á meðal en fjórir eru kosnir hitt árið og er varaformaður þar á meðal. Varamenn skulu vera þrír, kosnir til eins árs í senn og gegna þeir stjórnarstörfum í forföllum eða fjarveru aðalstjórnarmanna og taka sæti í stjórninni í þeirri röð sem þeir voru kosnir. Varamenn skulu boðaðir á stjórnarfundi og hafa málfrelsi og tillögurétt. Hafi varamenn verið sjálfkjörnir taka þeir sæti eftir röðun uppstillingarnefndar, sbr. 22. gr.

15. Grein
Stjórnarmenn skulu vera fjár síns ráðandi og uppfylla almenn hæfisskilyrði félagsaðildar. Stjórnarmenn mega ekki eiga meira en 10% hlut í hlutafélagi sem er í atvinnurekstri á starfssviði félagsins.

Stjórnarmaður víkur sæti við meðferð einstakra mála ef hann hefur persónulegra hagsmuna að gæta eða hagsmuna sem fara í bága við hagsmuni félagsins.

Stjórnarmönnum ber að eigin frumkvæði að gæta að hæfi sínu.

16. grein
Stjórn félagsins stýrir málefnum félagsins milli félags- og aðalfunda.
Stjórnin vinnur að stefnumótun fyrir félagið og framgangi þeirra mála sem félagið hefur sett sér að vinna að.
Stjórnin fylgist með störfum deilda eða starfsgreina sem starfræktar eru eða kunna að verða.
Nýbreytni alla og meiriháttar mál, skal stjórnin bera undir félagsfund, og getur hún því aðeins ráðið slíkum málum til lykta á eigin spýtur að félagsfundur hafi falið henni það með sérstakri samþykkt nema annað sé ákveðið í lögum félagsins í einstökum tilvikum.
Stjórnin kallar saman félagsfundi þegar hún telur ástæðu til eða ef tíu félagsmenn eða fleiri óska þess skriflega og geta um ástæðu. Þó skulu félagsfundir ekki vera færri en einn auk aðalfundar á hverju starfsári.
Stjórnin ákveður starfskjör daglegra stjórnenda félagsins, þar með talið formanns og framkvæmdastjóra sé slíkur ráðinn.

17. grein
Verkefni stjórnarmanna eru þessi:
a) Formaður félagsins er fulltrúi þess og félagsstjórnar út á við. Hann er í forsæti á stjórnarfundum og semur dagskrá fyrir þá. Hann kallar saman stjórnarfundi. Hann hefur eftirlit með starfsemi félagsins og fylgist með því að farið sé að lögum þess og samþykktum í öllum greinum. Varaformaður gegnir sömu störfum í forföllum formanns.
b) Ritari annast bókun fundargerða. Skal hann geta allra mála sem tekin eru fyrir á hverjum fundi, færa inn allar tillögur sem fram koma í hverju máli og geta um afgreiðslu þeirra. Skylt er að bóka nöfn ræðumanna og afstöðu þeirra til viðkomandi dagskrárliða.
c) Formaður undirritar bréf fyrir hönd félagsins, hafi öðrum ekki verið gefið umboð til þess.
d) Gjaldkeri hefur yfirumsjón með öllum fjárreiðum félagsins og skilar stjórn yfirliti um fjárreiður þess ef óskað er. Formaður samþykkir reikninga fyrir hönd félagsins hafi öðrum ekki verið gefið umboð til þess.
e) Stjórnar- og varamönnum ber að tilkynna forföll.
f) Stjórnin skal kappkosta að trúnaðarmenn séu á sem flestum vinnustöðum.
g) Stjórn skal standa fyrir í það minnsta einum fundi með trúnaðarmönnum árlega.

18. grein
Stjórn félagsins og varamenn í stjórn ásamt tuttugu og einum félagsmanni skipa trúnaðarráð félagsins.
Varamenn í trúnaðarráði eru sex. Í forföllum aðalmanna taka varamenn sæti þeirra. Formaður félagsins skal vera formaður trúnaðarráðs og ritari félagsins ritari þess.
Trúnaðarráð skal, eftir því sem kostur er, endurspegla breidd félagsins með hliðsjón af starfsgreinum, hópum og landshlutum og gætir uppstillingarnefnd þess í tilllögum sínum um fulltrúa.
Hlutverk trúnaðarráðs er að móta stefnu félagsins í mikilsverðum málum.

19. grein
Heimilt er að starfrækja deildir innan félagsins eftir starfsgreinum eða á afmörkuðum svæðum samkvæmt ákvörðun stjórnar félagsins. Hlutverk deilda er meðal annars að vinna að sameiginlegum hagsmunum starfsmanna í viðkomandi starfsgreinum eða á viðkomandi svæði. Stuðla að fræðslu og fjalla um sértæk kjaramál eða hagsmunamál viðkomandi deildar. Stjórn deildar er kosin á deildarfundi og skal skipuð að lágmarki þremur félagsmönnum. Þeir skipta með sér verkum, varamenn skulu vera jafnmargir.

Stjórn félagsins úthlutar fjármunum til rekstrar deildarinnar í samræmi við fjárhagsáætlun félagsins hverju sinni.

Deild skal setja sér starfsreglur sem stjórn staðfestir.

Deildir eru reknar á ábyrgð stjórnar félagsins.

20. grein
Kjörnir skoðunarmenn reikninga félagsins eru tveir og tveir til vara kosnir til eins árs í senn. Hlutverk þeirra er að hafa eftirlit með því að fjármunum félagsins sé í öllu ráðstafað í samræmi við félagsvenjur og gildandi heimildir. Þeir skulu hafa aðgang að bókum, fylgiskjölum og eignum félagsins hvenær sem þeir óska en gjaldkeri og formaður hafa rétt til að vera viðstaddir alla talningu á fé og öðrum eignum.
Reikningar félagsins skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda.

21. grein.
Aðalfundur getur samþykkt að kjósa fastanefndir sem starfa árlangt að nánar tilgreindum málum, annaðhvort sjálfstætt eða með stjórninni, eftir því sem aðalfundur ákveður.
Nefndir skulu skipaðar þremur, fimm eða sjö mönnum eftir því sem þurfa þykir hverju sinni. Sá sem flest atkvæði fær skal kalla nefndina saman og kýs hún sér formann og ritara. Ef atkvæði eru jöfn eða sjálfkjörið skal sá sem fyrst var stungið upp á kalla nefndina saman til fyrsta fundar. Um starfsemi nefnda, sem kosnar kunna að verða til að fjalla um ákveðin mál, fer eftir ákvæðum sem aðalfundurinn setur. Stjórnin getur kallað nefnd saman og látið hana gefa skýrslu ef stjórninni þykir ástæða til.

22. grein
Innan félagsins starfar uppstillingarnefnd, kosin á aðalfundi ár hvert. Hún skal vera fimm manna nefnd og einn til vara.
Verkefni hennar er að gera tillögu um menn í stjórn og varamenn þeirra, sem og í trúnaðarmannaráð og skoðunarmenn. Hún skal í störfum sínum kappkosta að tillögur hennar endurspegli starfsgreinar innan félagsins og landssvæði.
Nefndinni ber að leggja fram tillögur sínar eigi síðar en 1. febrúar og skulu þær vera félagsmönnum til sýnis á skrifstofu félagsins til 1. mars.
Einstökum félagsmönnum er heimilt að gera tillögur um menn í einstakar stöður til 15. febrúar. Skriflegt samþykki þeirra manna sem í kjöri eru, auk fimmtíu meðmælenda, skal fylgja hverri tillögu.
Í enga tillögu má taka nöfn þeirra er gefið hafa skriflegt leyfi til þess að nafn þeirra sé sett á aðra tillögu.
Til þess að uppástunga sé gild verða bæði þeir sem upp á er stungið, svo og meðmælendur að vera fullgildir félagar.
Komi fram tillögur frá einstökum félagsmönnum skal tilnefna og kjósa formannsefni sérstaklega og varaformannsefni sérstaklega í allsherjaratkvæðagreiðslu. Komi fram að öðru leyti tillaga um mann eða menn í stjórn eða varastjórn, skal kjósa sérstaklega um skipan manna í stjórn og sérstaklega í varastjórn á aðalfundi.

Að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum sbr. 14. grein á fyrsta fundi hennar eftir aðalfund.
Trúnaðarmannaráð, varamenn þess, endurskoðendur og varamenn þeirra, skal kjósa á aðalfundi, komi til kosninga.

5. KAFLI. SAMNINGANEFND OG KJÖRSTJÓRN

23. grein
Samninganefnd skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast um gerð kjarasamninga fyrir hönd félagsins. Í nefndin eiga sæti stjórn félagsins og varamenn hennar auk átta manna kjörnum af trúnaðarmannaráði. Formaður félagsins skal vera formaður samninganefndar.

24. grein
Kjörstjórn skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast um stjórn atkvæðagreiðslna um kjarasamninga, verkföll og allsherjaratkvæðagreiðslu samkvæmt lögum félagsins. Kjörstjórn skal kjörin af aðalfundi og í henni skulu eiga sæti tveir menn og tveir til vara. Við stjórnun atkvæðagreiðslna um kjarasamninga og verkföll skipar samninganefnd þriðja stjórnarmanninn, og skal hann vera formaður kjörstjórnar. Við stjórnun allsherjaratkvæðagreiðslna um önnur atriði samkvæmt lögum félagsins og/eða lögum ASÍ skipar miðstjórn ASÍ þriðja kjörstjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar.

6. KAFLI. SJÓÐIR OG FJÁRMÁL

25. grein
Sjóðir félagsins eru:
1. Félagssjóður
2. Sjúkrasjóður
3. Orlofssjóður
4. Öryggissjóður
5. Fræðslusjóður
6. Aðrir sjóðir sem kunna að verða stofnaðir

Allir sjóðir félagsins, aðrir en félagssjóður, skulu hafa skipulagsskrá samþykkta af aðalfundi.
Skipulagsskrá hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, ákveða hvernig má verja fé hans og hvernig honum skuli stjórnað.

Félagssjóður fjármagnar starfsemi félagsins. Tekjur félagsins renna allar í hann.
Stjórn félagsins og einstakra sjóða þess skulu ávaxta sjóði á öruggan og hagkvæman hátt. Stjórn félagsins ber sameiginlega ábyrgð á sjóðum félagsins.

7. KAFLI. SKRIFSTOFA

26. grein
Félagið rekur starfsstöðvar í Reykjavík, Akureyri og þar sem stjórn ákveður til að annast daglegan rekstur, innheimta iðgjöld félagsmanna, annast greiðslur, færa reikninga félagsins og sjóða þess. Annast rekstur mælingastofu, svara fyrirspurnum og leiðbeina félagsmönnum um hvað eina sem viðkemur félagsmálum. Aðstoða félagsmenn við að ná rétti sínum, rita bréf, halda félagaskrá, safna skýrslum fyrir stjórn félagsins og aðstoða félagsmenn eftir mætti í atvinnuleit.

Skrifstofu félagsins ber að fylgjast með að ófélagsbundnir eða réttindalausir vinni ekki í iðninni á starfssvæðinu í trássi við kjarasamninga eða lög. Berist skrifstofunni fleiri kvartanir í þessu efni en hún telur sér fært að sinna ber henni að gera stjórninni tafarlaust aðvart.

Heimilt er stjórn að ráða skrifstofustjóra sem sér um daglegan rekstur skrifstofunnar.
Stjórnin ræður starfsfólk skrifstofunnar. Starfsmenn félagsins mega ekki taka að sér aukastörf í umsömdum vinnutíma, nema í samráði við stjórn félagsins. Stjórn setur starfsfólki skrifstofunnar starfsreglur og semur um laun þess. Dagleg starfsemi félagsins er á ábyrgð stjórnar þess.

8. KAFLI. FJÁRMÁL

27. grein
Reikningsár félagsins og sjóða þess er almanaksárið. Endurskoðun reikninga skal lokið einni viku fyrir aðalfund og skulu þeir liggja frammi á skrifstofu félagsins fram að aðalfundi.

28. grein
Aðalfundur ákveður laun stjórnar. Stjórnin ákveður þóknun fyrir önnur tímafrek nefndarstörf. Þeir félagsmenn sem verða frá vinnu vegna starfa fyrir félagið skulu fá greitt vinnutap úr félagssjóði.

9. KAFLI. ALLSHERJARATKVÆÐAGREIÐSLA

29. grein
Allsherjaratkvæðagreiðsla skal fara fram í samræmi við ákvæði laga þessara. Ennfremur telji stjórn eða félagsfundur mál svo mikilvæg að nauðsyn knýji að viðhafa slíka afgreiðslu.

Ef allsherjaratkvæðagreiðsla er viðhöfð skal hún að fara fram samkvæmt reglugerð ASÍ um allsherjaratkvæðagreiðslu og lögum Samiðnar, sambands iðnfélaga.

10. KAFLI. FUNDIR

30. grein
Félagsfundi skal boða með minnst þriggja daga fyrirvara í dagblöðum og útvarpi eða bréflega þannig að líklegt sé að fundarboðið hafi borist viðtakanda tveim dögum fyrir fund. Aðalfund skal þó boða með dagskrá með sjö sólarhringa fyrirvara.

Heimilt er þó að boða til félagsfunda með auglýsingum í blöðum og útvarpi með skemmri fyrirvara, sé rökstudd ástæða til þess að dómi stjórnar og fundarefnið þolir ekki bið.

Fundir eru löglegir ef löglega er til þeirra boðað.

Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í öllum málum nema kveðið sé á um annað í lögum þessum.

Félagsfundur hefir æðsta vald í öllum félagsmálum, sé annað ekki tekið fram í lögum þessum.

Félagsfundi og aðalfundi er heimilt að halda á fleiri en einum stað samtímis enda lúti þeir sameiginlegri fundarstjórn og félagsmönnum sé tryggð full þátttaka í fundinum með tæknilegri útfærslu, til dæmis með fjarfundarbúnaði.

31. grein
Aðalfund skal halda fyrir 15. apríl ár hvert. Þessi eru störf aðalfundar:
1. Skýrsla félagsstjórnar.
2. Skýrslur fastanefnda.
3. Reikningar félagsins og skýrsla endurskoðenda.
4. Lagabreytingar og breytingar á skipulagsskrám sjóða, eftir atvikum.
5. Ákvörðun um félagsgjald og mælingagjald.
6. Kosning stjórnar, trúnaðarmannaráðs, uppstillingarnefndar, kjörnefndar og félagslegra skoðunarmanna reikninga félagsins.
7. Kosning fastanefnda.
8. Önnur mál.

32. grein
Eftir aðalfund skal birta félagsmönnum skýrslu stjórnar og fastanefnda, og útdrátt úr reikningum félagsins.

11. KAFLI. LAGABREYTINGAR

33. grein
Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi. Breytingatillögur skulu berast félaginu fyrir 1. febrúar. Stjórn félagsins er þá skylt að boða til félagsfundar og skal geta um lagabreytingartillögur í fundarboði. Sá félagsfundur skal haldinn minnst tveimur vikum fyrir aðalfund. Lagabreytingartillögur skulu lagðar fram fjölfaldaðar á þeim fundum sem þær eru afgreiddar.

Hafi lagabreytingartillögur verið kynntar á félagsfundi skal gerð grein fyrir þeim í aðalfundarboði. Á aðalfundi skulu lagabreytingar teknar til afgreiðslu og þarf 2/3 greiddra atkvæða til samþykktar.
Heimilt er þó á aðalfundi eða framhaldsaðalfundi að vísa lagabreytingum til allsherjaratkvæðagreiðslu.

12. KAFLI. SLIT FÉLAGSINS

34. Grein
Félaginu verður ekki slitið nema 2/3 hlutar greiddra atkvæða í allsherjaratkvæðagreiðslu í samræmi við 29. gr. laganna séu fylgjandi félagsslitum

Auðir og ógildir seðlar teljast ekki greidd atkvæði.

Sé félaginu slitið skal fela ASÍ vörslur sjóða félagsins þar til nýtt félag hefur verið stofnað sem starfar á sama grundvelli.

35. grein
Komi fram tillaga um að sameina félagið öðru félagi eða félögum eða annað félag óskar eftir sameiningu við félagið þarf samþykki 2 /3 greiddra atkvæða til að breytingin nái fram að ganga. Kosið skal um slíka tillögu á aðalfundi.

Tillaga um sameiningu skal kynnt á félagsfundi, sbr. 33. gr. og síðan gerð grein fyrir henni með fundarboði aðalfundar.

Ákveði aðalfundur félagsins að láta fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu um sameiningartillögu gildir einfaldur meirihluti greiddra atkvæða.

Þannig samþykkt á aðalfundi 28. mars 2012.