Saga Trésmiðafélags Reykjavíkur
Trésmiðafélag Reykjavíkur var stofnað 10. desember 1899. Stofnfélagar voru fimmtíu og einn trésmiður sem höfðu lífsviðurværi sitt af trésmíðum í Reykjavík. Fyrsti formaður félagsins var Sveinn Sveinsson. Félagið starfaði af allmiklum krafti fyrstu fimm árin, en smám saman tók að gæta þreytumerkja og í ársbyrjun 1909 lagðist starfsemin niður. Félagið starfaði síðan með hléum þar til það var endurvakið 21. janúar 1917 á almennum félagsfundi. Allmikil launaskerðing sem trésmiðir urðu fyrir á árunum 1915 og 1916 knúði trésmiði til að endurverkja félagið og hefur það starfað óslitið síðan.
Frá því að Trésmiðafélag Reykjavíkur var stofnað og fram á miðjan sjötta áratuginn var það fremur fagfélag en eiginlegt stéttarfélag. Þetta helgaðist af því, að félagið samanstóð af atvinnurekendum og launamönnum. Þegar kauptöxtum var breytt gerðist það innan félagsins, sem auglýsti svo taxta sína.
Um miðjan sjötta áratuginn varð veruleg breyting. Félagið skiptist og sérstakt meistarafélag varð til.
Áður en langt um leið gengu meistarar í Vinnuveitendasambandið og sveinar í Alþýðusambandið. Við þetta urðu mikil þáttaskil og Trésmiðafélag Reykjavíkur varð hreint stéttarfélag þar sem kjaramál eru efst á baugi.
Starfið
Styrkur Trésmíðafélags Reykjavíkur byggðist ekki síst á innra starfi og grunnurinn að því var lagður með öflugu og góðu félagsstarfi. Flestum þessara þátta hefur verið fram haldið í starfi Byggiðnar.
Stofnun fræðslunefndar innan félagsins árið 1959 var liður í að auka félagsstarfsemina. Í fyrstu beitti nefndin sér fyrir fræðslukvöldum af ýmsu tagi um málefni sem snertu störf trésmiða. Fræðslunefndin stóð að útgáfu félagsbréfs á árunum 1962-1966 og var almenn ánægja með það framtak. Árið 1966 var síðan stofnaður Fræðslu- og kynningarsjóður til að örva viðleitni félagsmanna til að afla sér aukinnar faglegrar og félagslegrar þekkingar.
Endurmenntunarnefnd Trémsmiðafélagsins og Meistarafélags húsasmiða stóðu fyrir endurmenntunarnámskeiðum fyrir félagsmenn sína á árunum 1972 til 1987. Félagið stóð svo að stofnun Fræðsluráðs byggingariðnaðarins sem yfirtók endurmenntunarmál félagsins. Fræðsluráðinu var síðan breytt í Menntafélag byggingariðnaðarins 1996 en það sá um endurmenntun allra iðngreina byggingariðnaðarins. Árið 2006 sameinuðust síðan Menntafélag byggingariðnaðarins, Fræðsluráð málmiðnaðarins, Prenttæknistofnun og Fræðsluráð hótel og matvælasviðs og stofnuðu eitt félag “Iðan, fræðslusetur”. Þar fer nú fram öll endurmenntun, símenntun og stefnumótun vegna grunnmenntunar og endurmenntunar iðngreina byggingariðnaðarins.
Félagsstarfið fór vaxandi eftir því sem leið á 20. öldina og var meðal annars stofnaður Samkór Trésmiðafélags Reykjavíkur þar sem félagsmenn og fjölskyldur þeirra tóku þátt í öflugu kórstarfi. Kórinn starfaði óslitið til síðustu aldamóta.
Félagið tók þátt í ýmiss konar fræðslu- og menningarstarfi með fullum aðgangi félagsmanna. Þar ber að nefna Menningar- og fræðslusamband alþýðu (MFA) og Félagsmálaskóla alþýðu, sem meðal annars halda námskeið sem veita innsýn í störf verkalýðshreyfingarinnar.
Mælingastofa Byggiðnar var áður starfrækt af TR. Hún sér um að reikna út kaup þeirra félagsmanna sinna sem vinna í uppmælingu, en hún er launakerfi sem byggir á reynslutölum sem stöðugt eru í endurskoðun. Uppmæling er aðferð til þess að mæla afköst þannig að mælt er magn þess sem framkvæmt er í mælanlegum stærðum; metrum, stykkjum, fermetrum o.s.frv. Þannig er tryggt að menn fái greitt í samræmi við vinnuframlag sitt og verkkaupinn greiðir sama verð, hver sem vinnur verkið og hversu langan tíma það tekur. Áratuga löng hefð er fyrir uppmælingakerfinu og eitt af fyrstu baráttumálum félagsins var að koma reglu á verðlagningu einstakra verkþátta trésmiða.