Nám og störf

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, opnaði í október 2019 vefinn Nám og störf, sem unninn var í samvinnu við Samtök iðnaðarins, Rafmennt og Verkiðn. Vefurinn byggir á grunni eldra vefsvæðis sem IÐAN fræðslusetur hélt úti en á nýjum vef hafa nokkrir smærri vefir verið sameinaðir í einn stærri.

Hugmyndin er að stuðla að samvinnu og samtali á milli skóla og atvinnulífs samhliða því að vekja áhuga á verklegum greinum og gera aðgengilegar upplýsingar um fjölbreytt störf og námsleiðir þeim tengdum.

Þar fyrir utan er vefurinn hluti af hugmyndafræði sem byggir á að til lengri tíma skili það meiri árangri en tímabundin átaksverkefni, að fræða ungt fólk og þjálfa í að taka sjálfstæðar ákvarðanir um nám og störf, að því er fram kom í kynningu á vefnum þegar hann var settur í loftið. „Áherslurnar eru þrenns konar; fræða – skoða – prófa, þar sem atvinnulíf og skóli vinna saman að því að fræða ungt fólk skipulega um fjölbreytileika atvinnulífsins og gera þau betur í stakk búin að tengja þær upplýsingar eigin áhuga og hæfileikum.“

Hér má skoða vefinn en þar eru byggingagreinar meðal annars teknar fyrir. Um húsasmíði segir til dæmis að um sé að ræða fjölbreytt og spennandi starf fyrir handlagið, skapandi og framkvæmdaglatt fólk sem hefur gaman að trésmíði, inni sem úti. „Húsasmiðir vinna við að byggja hús ásamt því að sinna viðhaldi og endurbyggingum, oft hjá byggingafyrirtækjum eða verkstæðum en einnig starfa margir sjálfstætt. Í náminu er lögð áhersla á fjölbreytt smíðaverkefni á verkstæði og við innréttingar, úti- og innivinnu á byggingastað og vinnu við viðgerðir og breytingar.“

Finna má upplýsingar um hvar fólk getur lagt stund á nám í húsasmíði, upplýsingar um lengd og eðli námsins og helstu verkefni, svo dæmi séu tekin. Á vefnum Næstu skref má svo finna enn ítarlegri upplýsingar um iðngreinina.