Um sjúkrasjóð
Sjúkrasjóður Byggiðnar er starfræktur í þeim tilgangi að veita félagsmönnum fjárhagslegan stuðning í veikinda eða slysatilfellum, eftir að launagreiðslum frá atvinnurekanda lýkur. Ennfremur er það meðal verkefna sjóðsins, að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum, sem snerta öryggi og heilsufar félagsmanna. Tekjustofn sjúkrasjóðs er 1% lögboðið gjald sem atvinnurekendur greiða af launum starfsmanna sinna sem tilheyra byggingagreinum.
Dagpeningar eru greiddir til þeirra félagsmanna sem greitt hafa til sjóðsins iðgjöld í a.m.k. 6 mánuði. Dagpeningar eru greiddir út síðasta virkan dag mánaðar.
Sjúkrasjóðurinn veitir styrki vegna líkamsræktar, sjúkraþjálfunar, krabbameinsskoðunar, gleraugna- og heyrnatækjakaupa o.fl til að auðga og bæta heilsu félagsmanna. Styrkir eru greiddir út í vikunni eftir að öll gögn hafa skilað sér með umsókn.
Af atvinnulausum félagsmönnum eða foreldrum í fæðingarorlofi er ekki greitt til Sjúkrasjóðs, en heimilt er að úthluta þeim dagpeningum í veikindum og slysum enda hafi þeir verið sjóðfélagar og átt rétt til dagpeningagreiðsla áður en þeir urðu atvinnulausir eða fóru í fæðingarorlof. Skilyrt er að þeir greiði félagsgjald af atvinnuleysisbótum.
Réttur til styrkja helst í 3 ár eftir að viðkomandi hættir á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku hafi viðkomandi verið virkur og greiðandi félagsmaður í 7 ár þar á undan. Annars eiga þeir rétt til styrkja í 3 mánuði frá starfslokum.
Sjúkrasjóðurinn veitir dánarbætur við andlát sjóðfélaga til lögerfingja.
Nánari upplýsingar um dagpeninga, styrki og dánarbætur er hægt að fá á skrifstofum félagsins og í síma 540-0100.