Saga Félags byggingamanna í Eyjafirði

Félag byggingamanna Eyjafirði (áður Trésmiðafélag Akureyrar) var stofnað árið 1904. Stofnfundargerðin er glötuð, en af fundargerð aldarfjórðungi síðar má ráða að stofnfundurinn hafi verið haldinn sunnudaginn 24. janúar. Í nálega 90 ár var félagið eingöngu fyrir trésmiði, húsasmiði, húsgagnasmiði (húsgagnasmiðir höfðu um tíma eigið félag en gengu svo aftur í TFA), skipasmiði og nokkrir beykjar voru líka í því framan af.

Ekki er vitað með öruggri vissu hve margir stofnuðu félagið. Í nýlegri bók um sögu þess, Ef félagseining stendur sterk, leiðir höfundur, Helgi Guðmundsson rithöfundur og fyrrverandi formaður félagsins, rök að því að þeir hafi verið 32 og nafngreinir hann þá. Miðað við upplýsingar úr manntölum og kjörskrám frá þessum tíma hefur yfirgnæfandi meirihluti sveina í bænum verið í félaginu í upphafi. Þeir áttu það flestir sameiginlegt að finnast ekki á kjörskrám tímans, höfðu of lágar tekjur til að mega kjósa, þar sem menn urðu að greiða tiltekna upphæð til „samfélagsþarfa” til að fá kosningarétt (konur höfðu ekki kosningarétt). Aðeins tveir af ætluðum stofnendum höfðu kosningarétt, þannig að stefnendurnir voru í aðalatriðum fátækir erfiðisvinnumenn.

Talið er að Guðbjörn Björnsson hafi verið aðalhvatamaðurinn að félagsstofnuninni og fyrsti formaður þess. Rök hafa verið leidd að því að stofnun félagsins tengist byggingu Gagnfræðaskólans (Menntaskólans) án þess þó að fundist hafi skýrar heimildir um það. Veturinn 1903 – 1904 undirbjuggu yfirvöld byggingu hússins og kepptust timburmeistarar við að undirbúa tilboð í bygginguna. Alþingi hafði samþykkt fjárveitingu sem var langt undir upphaflegri kostnaðaráætlun þannig að miklu skipti fyrir bjóðendur hvað þeir þyrftu að borga smiðunum, en dagkaupið var 3 krónur fyrir 10 tíma vinnu og vinnuvikan 60 tímar.

Félagið gaf formlega út verðskrá í byrjun ársins 1906 og er hún keimlík verðskrá Trésmiðafélags Reykjavíkur frá árinu 1900. Höfundur áðurnefndrar bókar telur líklegt að smiðir hafi bundist samtökum um að nota verðskrárnar, a.m.k. til viðmiðunar við smíði Gagnfræðaskólahússins, og þannig tengist félagið byggingunni. Framan af koma nokkrum sinnum eyður í færslu fundargerða en alltaf þegar fundir hefjast aftur eru sömu menn á vettvangi með sömu gögnin í höndunum, þannig að aldrei þarf að endurreisa félagið og má því telja að það starfi nokkurn veginn samfellt frá stofnun en af mismiklum þrótti.

Undir jól 1928 stofna meistarar með sér félag og um leið snarfjölgar í TFA. Mánuði síðar samþykkir aðalfundur að enginn geti verið í félaginu sem er í meistarafélagi. Í tímans rás fór þó svo að ýmsir meistarar voru í félaginu. Meistarafélagið starfaði mjög stopult fyrstu áratugina sem m.a. gerði það að verkum að eiginlegir kjarasamningar voru ekki gerðir. Í staðinn var auglýstur kauptaxti, í reynd með samþykki meistara sem voru í TFA. Á kreppuárunum (1930 – 1940) var oft mjög lítið um vinnu fyrir smiði og hörð samkeppni um verkefni. Þetta leiddi hvað eftir annað til undirboðs og kauplækkunar frá samþykktum töxtum og varð stundum enginn munur á launum smiða og verkamanna.

Fyrsti fáninn með merki félagsins var handmálaður og borinn í skrúðgöngu við lýðveldisstofnunina 1944.

Segja má að á vordögum 1955 hefjist nýtt tímabil í sögu félagsins. Oftar og oftar heyrast raddir um að meistarar eigi ekki heima í félaginu og það færist sífellt meira í fang á félagslega sviðinu. Næstu tvo áratugina tekur félagið smátt og smátt þeim breytingum að verða félag launamanna. Aðgerðir hefjast gegn vinnu gervismiða, sjúkrasjóður vex (upphaflega stofnaður 1940), lífeyrissjóður er stofnaður, uppmæling er tekin upp, starfsmenn ráðnir og sv. frv. Á fundi 20. janúar 1967 var samþykkt að félagið sækti um inngöngu í Samband byggingamanna og jafnframt gekk það þá úr Landssambandi iðnaðarmanna og varð aðili að Alþýðusambandi Íslands.

Allar þessar breytingar leiddu til þess að félagið tók að gera formlega kjarasamninga við samtök atvinnurekenda eins og önnur verkalýðsfélög. Að loknu þessu tímabili, sem sannarlega var ekki án erfiðleika, voru félagsmenn orðnir um 200 talsins og félagið tilbúið að takast á við ný og krefjandi verkefni, að auka þjónustuna við félagsmenn, beita sér í fræðslu- og menntunarmálum, eignast eigið húsnæði, orlofshús/íbúð og er aðeins fátt eitt nefnt.

Félagið hefur í gegnum tíðina sett mark sitt á uppbyggingu Akureyrar. Það beitti sér fyrir stofnun Iðnaðarmannafélags Akureyrar haustið 1904, en Iðnaðarmannafélagið stofnaði og rak Iðnskólann í hálfa öld. Verk félagsmanna sjást í byggingasögu bæjarins og ekki síður með beinni þátttöku í stefnumörkun þar sem nokkrir forystumenn félagsins hafa setið í bæjarstjórn Akureyrar og auk þess gegnt ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir Akureyrarbæ s.s. í bygginganefnd Verkmenntaskólans.