Fréttir
Vilt þú starfa í þágu byggingamanna?

Vilt þú starfa í þágu byggingamanna?

Byggiðn auglýsir eftir áhugasömu félagsfólki til starfa í trúnaðarráði og stjórn félagsins. Uppstillingarnefnd hefur hafið störf og mun leggja fram tillögur sínar eigi síðar en 1. febrúar.

Fyrir liggur að mannabreytingar eru að verða í trúnaðarráði og jafnvel stjórn. Öll framboð eru velkomin en að þessu sinni er óhætt að skora sérstaklega á konur innan raða félagsins að láta að sér kveða. Þau sem hafa áhuga á að vinna að hagsmunamálum stéttarinnar geta haft samband við formann félagsins, Jón Bjarna Jónsson, fyrir frekari upplýsingar. Netfang formanns er jbj@byggidn.is.

Hlutverk uppstillingarnefndar

Í lögum félagsins segir meðal annars um uppstillingarnefnd: Innan félagsins starfar uppstillingarnefnd, kosin á aðalfundi ár hvert. Hún skal vera fimm manna nefnd og einn til vara.
Verkefni hennar er að gera tillögu um menn í stjórn og varamenn þeirra, sem og í trúnaðarmannaráð og skoðunarmenn. Hún skal í störfum sínum kappkosta að tillögur hennar endurspegli starfsgreinar innan félagsins og landssvæði.
Nefndinni ber að leggja fram tillögur sínar eigi síðar en 1. febrúar og skulu þær vera félagsmönnum til sýnis á skrifstofu félagsins til 1. mars.
Einstökum félagsmönnum er heimilt að gera tillögur um menn í einstakar stöður til 15. febrúar. Skriflegt samþykki þeirra manna sem í kjöri eru, auk fimmtíu meðmælenda, skal fylgja hverri tillögu.

Um trúnaðarráð

Stjórn félagsins og varamenn í stjórn ásamt tuttugu og einum félagsmanni skipa trúnaðarráð félagsins.
Varamenn í trúnaðarráði eru sex. Í forföllum aðalmanna taka varamenn sæti þeirra. Formaður félagsins skal vera formaður trúnaðarráðs og ritari félagsins ritari þess.
Trúnaðarráð skal, eftir því sem kostur er, endurspegla breidd félagsins með hliðsjón af starfsgreinum, hópum og landshlutum og gætir uppstillingarnefnd þess í tilllögum sínum um fulltrúa.
Hlutverk trúnaðarráðs er að móta stefnu félagsins í mikilsverðum málum.