Tilkynningar
Opið fyrir umsóknir um orlofshús

Opið fyrir umsóknir um orlofshús

Félagsmenn geta sótt um sumarúthlutun orlofshúsa 2023 á tímabilinu frá 15. til 29. mars. Hægt er að sækja um til miðnættis miðvikudaginn 29. mars. Daginn eftir, þann 30. mars, fá allir sem sækja um svar við umsókn sinni. Þeir sem fá synjun hafa þá kost á því að sækja um lausar vikur til 16. apríl. Þann 17. apríl rennur greiðslufrestur vegna sumarúthlutunar út en daginn eftir verður opnað fyrir umsóknir um þær vikur sem ekki var úthlutað. Þá gildir fyrirkomulagið fyrstur kemur – fyrstur fær.

Framboð orlofshúsa er með svipuðu sniði og verið hefur. Hægt er að kynna sér framboðið á orlofsvefnum eða nýútkomnu í Orlofsblaði Byggiðnar.

Félagsmenn eru hvattir til að skila umsóknum sínum um orlofshús tímanlega og hafa fyrr en síðar samband við skrifstofu Byggiðnar ef eitthvað er óskýrt í þeim efnum – eða ef þeir þurfa aðstoð við umsóknina. Sótt er um orlofshús á orlofsvefnum, orlof.is/byggidn. Hlekk á vefinn má einnig finna á áberandi stað á heimasíðu félagsins.
Punktakerfi er sem fyrr notað við úthlutun en félagsmaður ávinnur sér einn punkt fyrir hvern mánuð sem hann greiðir félagsgjald. Þegar tveir eða fleiri sækja um orlofshús fær sá sem hefur fleiri punkta húsið.

Þann 1. júní verður opnað fyrir bókanir vetrarleigu orlofshúsa, frá 1. september fram að áramótum. Vikuleiga í orlofshúsin þetta árið kostar á bilinu 26.500 – 35.000 krónur og hækkar lítillega á milli ára. Stærð húsanna og staðsetning stýrir verðinu, sem er þó afar hófstillt.

Athygli er vakin á því að Byggiðn hefur látið útbúa húsbækur í vinsælustu orlofshús félagsins. Þar er meðal annars að finna upplýsingar um sögu staðarins, afþreyingu á svæðinu, svo sem golfvelli, sundlaugar og veiði, auk ýmissa annarra hagnýtra upplýsinga. Það er von félagsins að gestir orlofshúsanna muni hafa bæði gagn og gaman af bókunum.

Veiði- og útilegukort

Veiðikortið er selt til félagsmanna á 5.000 krónur en fullt verð er 8.900 krónur. Á heimasíðu kortsins, veidikortid.is, má finna allar upplýsingar um hvar hægt er að nota kortið. Þar kemur meðal annars fram að kortið veitir aðgang að 36 vatnasvæðum vítt og breitt um landið. Kortið gildir fyrir einn fullorðinn. Börn yngri en 14 ára veiða frítt í fylgd korthafa.

Útilegukortið kostar til félagsmanna 18.500 krónur. Á heimasíðu kortsins, utilegukortid.is, er að finna allar upplýsingar um þau tjaldsvæði þar sem hægt er að nota kortið, en þau eru um 40 talsins og eru í öllum landshlutum. Kortið veitir tveimur fullorðnum og fjórum börnum undir 16 ára fría gistingu á tjaldsvæðum samstarfsaðila Útilegukortsins í allt að 28 gistinætur á hverju starfsári þess. Engin takmörk eru fyrir því hve oft má koma á hvert tjaldsvæði innan gistináttanna 28 en einungis má gista í fjórar nætur samfellt í hvert skipti. Útilegukortið gildir fyrir tjöld, tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi og húsbíla. Athugið að gistináttaskattur, 333 krónur á gistieiningu fyrir hverja nótt, er ekki innifalinn í Útilegukortinu. Kortin er hægt að nálgast í miðasölu á orlofshúsasíðu byggiðnar, byggidn.is

Ferðaávísun

Ferðaávísun hefur undanfarin ár fest sig í sessi þegar að orlofi félagsmanna kemur. Á hverju ári bætast við spennandi nýjungar í ferðaávísun en með henni fá félagsmenn kjör á gistingu á hótelum og gistiheimilum sem ekki fást á almennum markaði. Félagið niðurgreiðir auk þess ferðaávísunina um 20% (að hámarki 15.000 krónur), svo um afar hagstæðan valkost er að ræða.
Auk gistingar veitir ferðaávísun aðgang að skipulögðum gönguferðum og annarri afþreyingu á tilboðskjörum. Ferðaávísunin er keypt á orlofsvefnum, hvar finna má mun ítarlegri upplýsingar um ávísunina.

Niðurgreiddir ferðavagnar

Byggiðn býður félagsmönnum niðurgreiðslu á ferðavögnum í sumar, eins og undanfarin ár. Félagsmaður velur tjaldvagn, hjólhýsi eða fellihýsi hjá viðurkenndri leigu og þann tíma sem honum hentar. Að lokinni notkun framvísar hann leigusamningi og fær þá 15.000 króna endurgreiðslu. Leigusamningurinn þarf að vera á nafni félagsmanns og útgefandi reiknings skráður sem starfandi ferðavagnaleiga.