Fréttir
„Ég vil þakka Byggiðn fyrir að leggja okkur lið“

„Ég vil þakka Byggiðn fyrir að leggja okkur lið“

„Þetta hefur mikla þýðingu fyrir Ljósið. Við vinnum að því alla daga að safna fyrir starfseminni. Styrkur eins og þessi rennur beint inn í starfið hjá okkur; hann nýtist til að halda námskeið eða kaupa nauðsynlegan húsbúnað, svo ég nefni eitthvað.“ Þetta segir Erna Magnúsdóttir, stofnandi og forstöðukona Ljóssins.

Aðalfundur Byggiðnar ákvað á dögunum að styrkja Ljósið um 500 þúsund krónur. Jón Bjarni Jónsson formaður og Sóley Rut Jóhannsdóttir gjaldkeri afhentu Ernu styrkinn í liðinni viku.

Erna stofnaði Ljósið árið 2005 en Ljósið er eina sérhæfða endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðin fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess á Íslandi. Stöðugildin voru 26 í fyrra en þeim mun sennilega fjölga upp í a.m.k. 40 innan þriggja ára. Erna segir í samtali við Byggiðn að því miður sé krabbameinsgreindum á Íslandi að fjölga. Það skýri aukin umsvif Ljóssins.

Ljósið er á fjárlögum og hefur verið frá 2020 en ríkið veitir 250 milljónum til rekstursins. Sú upphæð hrekkur þó skammt, að sögn Ernu. „Hér fara um 1.600 manns í gegn á ári. Við tökum oft við 100 til 150 manns á dag. Sumir koma hingað nýgreindir, beint frá lækninum og stundum er fyrsta viðtalið einfaldlega áfallahjálp,“ útskýrir hún. Fólk sem greinist með krabbamein getur nýtt sér starfsemi Ljóssins sér að kostnaðarlausu.

Ljósið er til húsa á Langholtsvegi 43, Reykjavík.

Fjölbreytt endurhæfing

Flestir sem nýta sér þjónustu Ljóssins þurfa á nokkurra mánaða endurhæfingu að halda. Erna segir að það ráðist meðal annars af umfangi veikindanna og hvaða meðferð sé beitt; hvort um hefur verið að ræða geislameðferð, lyfjameðferð eða skurðaðgerð. Sumir hafa gengið í gegn um þetta allt. Þeir þurfa oftast á lengri meðferð að halda.

Ljósið býður upp á fjölbreytta endurhæfingu. Fyrsta skrefið er yfirleitt að mæta í greiningarviðtal, þar sem fundið er út hvaða meðferð hentar best hverjum einstaklingi. „Við erum með iðjuþjálfun þar sem við byggjum fólk upp hvað varðar daglegar athafnir. Svo bjóðum við upp á sjúkraþjálfun og styrktarþjálfun, þar sem fólk byggir upp líkamlegan styrk eftir veikindin. Auk þess bjóðum við upp á mikla fræðslu, jóga og alls kyns handverkshópa, þar sem fólk getur byggt sig upp á nýjan leik,“ segir Erna. “ Hún segir að Ljósið veiti í raun alhliða endurhæfingu. „Manneskjan er heildræn og það þarf að huga að öllum þáttum – þetta er 360 gráður,“ segir hún og bætir við að Ljósið sinni fólk af öllu landinu. „Við höfum markað okkur stefnu í fjarheilbrigðisþjónustu og bjóðum þar upp á viðtöl námskeið og ýmislegt fleira. Hjá Ljósinu er allt landið undir.“

Brýn þörf á stærra húsnæði

Þegar formaður og gjaldkeri Byggiðnar gengu um húsakynni Ljóssins á Langholtasvegi á dögunum – undir handleiðslu Ernu – blasti við að hvert einasta skot í húsinu er nýtt til hins ítrasta. Starfsemin hefur fyrir löngu sprengt húsnæðið utan af sér. Erna segir að eitt helsta markmið Ljóssins sé að komast í stærra húsnæði. En til þess þarf fjármagn. Hún bindur vonir við að á næsta ári, þegar Ljósið fagnar 20 ára starfsafmæli, verði þau farin að sjá til lands hvað það varðar.

Eins og áður segir eru styrkir frá einstaklingum og félagasamtökum Ljósinu afar dýrmætir. „Ég vil þakka Byggiðn fyrir að leggja okkur lið – þetta er ómetanlegt og hjálpar okkur mikið. Ég vil líka hvetja alla til að gerast Ljósavinir – og hjálpa okkur með mánaðarlegum framlögum,“ segir hún að lokum.