Fréttir
Alverk byggir 100 íbúðir fyrir námsmenn

Alverk byggir 100 íbúðir fyrir námsmenn

Byggingafélag námsmanna og Alverk ehf. skrifuðu þann 27. desember undir samning um byggingu á 100 námsmannaíbúðum við Stakkahlíð í Reykjavík. Samningurinn snýr bæði að hönnun og byggingu íbúðanna.

Þetta kemur fram á vef Byggingafélags námsmanna.

Framkvæmdirnar hefjast næsta vor en alls er um að ræða tæplega sex þúsund fermetra.

Fram kemur á vefnum að samningurinn sé gerður í kjölfar lokaðs útboðs BN (Byggingafélags námsmanna) í mars 2018. Þar varð Alverk hlutskarpast bjóðenda.

Íbúðirnar eru framkvæmdar með stofnframlagi frá Reykjavíkurborg og Íbúðalánasjóði. Þær verða byggðar samkvæmt reglum um almennar leiguíbúðir.

Samningsupphæðin hleypur á 2,5 milljörðum króna. Aðalhönnuðir Alverks eru Arkþing / Nordic ehf. og verkfræðihönnun er í höndum Vektors ehf. Hluti íbúðanna eru svokallaðar Co-living-íbúðir. Það hefur í för með sér að leigurýmin verða 126 talsins.