Fréttir
Veglegt afmælisblað gefið út

Veglegt afmælisblað gefið út

Glæsilegt afmælisblað Byggiðnar er komið úr prentun. Til að draga úr sóun verður blaðið aðeins borið út til félagsfólks sem náð hefur lífeyrisaldri. Það ætti að berast inn um lúguna á næstu dögum.

Blaðið er hins vegar aðgengilegt öllu félagsfólki hér.

Þeir félagar sem ekki fá blaðið heimsent en vilja lesa það á pappír geta nálgast prentað eintak á skrifstofu félagsins í komandi viku eða haft samband og óskað eftir að fá það sent.
Eins og Jón Bjarni Jónsson, formaður félagsins, skrifar um í pistli í blaðinu er því nú fagnað að 125 ár eru liðin frá því að Trésmiðafélag Reykjavíkur, forveri Byggiðnar, var stofnað. Að sama skapi voru þann 24. janúar síðastliðinn liðin 120 ár frá stofnun Trésmiðafélags Akureyrar, annars forvera félagsins.

Jón Bjarni Jónsson formaður

„125 ára afmæli Byggiðnar er merkisáfangi sem endurspeglar langa sögu af fagmennsku, framþróun og sterku samfélagi byggingamanna. Félögin sem tilheyra sögu Byggiðnar hafa frá upphafi staðið vörð um réttindi og hagsmuni iðnaðarmanna í byggingargeiranum, lagt sitt af mörkum til að efla gæði og öryggi í greininni og tryggt að byggingamenn njóti sanngjarnra kjara og virðingar í samfélaginu,“ skrifar Jón Bjarni.

Fjölbreytt efnistök

Í blaðinu kennir ýmissa grasa. Rætt er ítarlega við tvo fyrrverandi formenn félagsins, fjallað er um eftirlitsheimsókn Vinnustaðaeftirlits Fagfélaganna á byggingasvæði og rætt við Hafþór Gunnarsson hjá Tréverki á Dalvík. Forsíðuna prýðir tilvísun í viðtal við sambýlisfólkið Elínu Helenu Jóhannsdóttur og Ólaf Oddgeir Viðarsson, sem bæði eru félagar í Byggiðn og vinna hjá verktakafyrirtækinu ÞG Verk. Ýmislegt fleira áhugavert leynist í blaðinu.