Samiðn fordæmir vaxtahækkun bankanna
Samiðn, samband iðnfélaga fordæmir þá ákvörðun Íslandsbanka og Arion banka að hækka vexti á verðtryggðum lánum. Hátt vaxtastig hefur undanfarin misseri sligað heimili landsins. Almenningur hefur þurft að flýja óverðtryggð húsnæðislán og taka verðtryggð þess í stað. Í því ljósi er forkastanlegt að bankarnir skuli tilkynna um vaxtahækkun þeirra lána, sama dag og Seðlabankinn boðar langþráða vaxtalækkun.
Almenningur, sem hefur þurft að axla þungar byrðar undanfarin ár, er enn látinn súpa seyðið af óstjórn efnahagsmála í landinu. Nær væri að ábatinn af ábyrgri nálgun við gerð kjarasamninga síðastliðinn vetur, rynni til almennings. Stjórnir og eigendur bankanna hljóta að geta dregið tímabundið úr arðsemiskröfum sínum. Þeim ætti að renna blóðið til skyldunnar.
Ef takast á að skapa hér hagstæðara efnahagsumhverfi þurfa bankarnir, rétt eins og lífeyrissjóðir, stórfyrirtæki, ríkið og sveitarfélögin að taka þátt. Enginn er undanskilinn ef markmið kjarasamninga um frekari lækkun verðbólgu og vaxta eiga að nást. Vinnandi stéttir landsins hafa svo sannarlega skilað sínu.
Miðstjórn Samiðnar