Greinar
Öflugur hópur ungs iðn- og tæknifólks keppir á EuroSkills í Herning 2025

Öflugur hópur ungs iðn- og tæknifólks keppir á EuroSkills í Herning 2025

Í september 2025 heldur íslenskur landsliðshópur ungs iðn- og tæknifólks til Herning í Danmörku til að taka þátt í EuroSkills Herning 2025, stærstu evrópsku keppni á sviði verk- og tæknigreina. Keppnin fer fram dagana 9.–13. september og þar mætast um 600 keppendur frá 33 löndum í alls 38 greinum.

Ísland á að þessu sinni 13 keppendur, sem hafa allir sýnt framúrskarandi færni og brennandi áhuga á sinni grein. Þeir hafa lagt hart að sér í undirbúningi og mynda samheldinn hóp sem er tilbúinn að takast á við þetta krefjandi verkefni.

Þema EuroSkills Herning 2025 er „Skilled for a greener future“, sem undirstrikar mikilvægi iðn- og tæknimenntunar fyrir sjálfbæra framtíð. Á meðan á mótinu stendur verður ekki aðeins keppt í fjölmörgum greinum heldur einnig boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir gesti. Þar má nefna „SkillsZone“ í miðbæ Herning, þar sem gestir geta kynnst ólíkum iðngreinum og prófað sig áfram á lifandi og skemmtilegan hátt.

EuroSkills er einstakt tækifæri til að sýna fram á hæfni, hugvit og skapandi kraft ungs iðn- og tæknifólks. Þátttakan er jafnframt mikilvægur liður í að efla virðingu fyrir verk- og tæknimenntun á Íslandi og hvetja fleiri til að velja sér störf í þessum greinum.

Við hjá Byggiðn erum afar stolt af keppendum okkar og sendum þeim okkar bestu kveðjur og óskum þeim velfarnaðar á EuroSkills Herning 2025.

Nánari upplýsingar um íslenska landsliðshópinn og ferðina til EuroSkills Herning 2025 má finna á vef Iðunnar fræðsluseturs: idan.is.