Fréttir
Nýr Tækniskóli rís í Hafnarfirði

Nýr Tækniskóli rís í Hafnarfirði

Stjórnvöld, Hafnarfjarðarbær og Tækniskólinn hafa undirritað skuldbindandi samkomulag um að reisa nýtt húsnæði fyrir Tækniskólann við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði. Hildur Ingvarsdóttir skólameistari, Egill Jónsson, stjórnarformaður skólans, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar undirrituðu samkomulagið á Norðurbakkanum í Hafnarfirði á fimmtudag.

Nú tekur við undirbúningur að hönnun og gerð framkvæmdaráætlunar. Verklok eru fyrirhuguð 2029. Byggingin verður 30 þúsund fermetrar og á að rúma þrjú þúsund nemendur. Í fyrra áfanga verður reist 24 þúsund fermetra bygging en í seinni áfanga sex þúsund fermetra viðbót. Þá verður gert ráð fyrir frekari stækkun á lóðinni þegar fram líða stundir. Með byggingu húsnæðisins verður þeim áfanga náð að allt nám skólans verður sameinað undir einu þaki.

Hildur Ingvarsdóttir sagði við þetta tilefni: „Það er svo sannarlega bjart yfir í dag. Að undirrita þetta samkomulag er langþráður áfangi á krefjandi ferðalagi. Ferðalagi sem hófst fyrir 6 árum síðan og lýkur vonandi á næstu 5 árum. Ferðalagi sem hefur það skýra markmið að efla iðn-, starfs- og tækninám á Íslandi. Það ætlum við að gera með því að byggja upp framúrskarandi aðstöðu fyrir nemendur okkar og starfsfólk og um leið enn betra samfélag náms og nýsköpunar í húsi sem býður jafnframt nærsamfélagið velkomið.“

Byggiðn lýsir yfir ánægju sinni með þessi löngu tímabæru tímamót. Húsnæðið mun vafalítið bylta aðstöðu til iðnnáms á Íslandi.