Inga Sæland fundaði með Byggiðn
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, mætti til fundar eldri félagsmanna síðastliðinn fimmtudag. Með ráðherranum í för voru tveir aðstoðarmenn.
Á fundinum steig Inga í pontu og hélt tölu. Í ræðu sinni fór hún um víðan völl, eins og henni er lagið. Hún ræddi meðal annars stefnu Flokks fólksins í ýmsum málum og það sem hún brennur sjálf fyrir, sem eru málefni þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu. Hún ræddi einnig mál sem eru á dagskrá ríkisstjórnarinnar.
Að ræðu sinni lokinni settist Inga við borð í fundarsalnum á Stórhöfða og átti þar samtöl eða svaraði spurningum frá fundargestum. Hún gaf sér góðan tíma og lýsti yfir ánægju sinni með að fá tækifæri til að eiga samtal við þennan hóp.
Ingu var vel tekið, sem von er, en fékk líka að glíma við krefjandi spurningar. Að lokum skrifaði hún, fyrst gesta, í nýja gestabók félagsins. „Hjartans þakkir fyrir ykkur og hlýjar móttökur. Inga Sæland,“ skrifaði hún í bókina.
Að klukkutíma liðnum hélt hún til annarra verkefna.
Eldri félagsmenn Byggiðnar færa Ingu þakkir fyrir að gefa sér tíma fyrir þennan fund. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá fimmtudeginum. Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri.
