Greinar
Hugur í konum á tíma­móta­fundi Fag­félaganna

Hugur í konum á tíma­móta­fundi Fag­félaganna

Um 50 öflugar konur innan Fagfélaganna sóttu fund sem haldinn var á Stórhöfða 31 í gær þar sem málefni kvenna á vinnumarkaði voru til umfjöllunar. Hálf öld er í ár liðin frá kvennafrídeginum 1975, sem vakti heimsathygli. Konur á Íslandi lögðu þá niður launuð sem ólaunuð störf sín og stöðvuðu þannig samfélagið. Þrátt fyrir þrotlausa baráttu í hálfa öld búa konur enn við misrétti og ofbeldi.

Rafvirkinn Jóhanna Bárðardóttir, formaður Félags fagkvenna og aðaltrúnaðarmaður hjá ISAL, stýrði fundinum og hélt sjálf erindi þar sem hún sagði frá eigin reynslu af hindrunum og fordómum sem hún hefur mætt á vinnumarkaði og birti áhugaverðar tölur um hlutfall kvenna sem lokið hafa iðngreinum. Hún nefndi þannig til dæmis að 112 konur hafi lokið sveinsprófi í rafvirkjun frá upphafi, af 5.200 nemendum. Hlutfall kvenna sé þannig 2,2%. Hún dró fram fleiri áþekkar staðreyndir; tölfræði sem hver sem er getur kynnt sér.

Þegar erindi Jóhönnu lauk og fundargestir höfðu sótt sér veitingar flutti Halldóra Geirharðsdóttir leikkona erindi. Hún hélt kraftmikla tölu, eins og henni einni er lagið; frásögn úr eigin reynsluheimi með fallegum boðskap sem á erindi við fólk af öllum kynjum. Hún talaði meðal annars um mikilvægi þess að setja sjálfum sér og öðrum mörk og læra að elska sjálfan sig eins og maður er.

Að erindi Halldóru loknu fór fram hópavinna þar sem umræðuefnið var staða kvenna í karllægum iðn- og tæknigreinum. Fram kom meðal annars í umræðunum að draga þarf karla inn í umræðu um jafnréttismál, þau séu enda á ábyrgð allra. Í umræðunum var einnig rætt um hvernig best sé að standa að því að bjóða karlmönnum til þátttöku í samtalinu um jafnrétti í þessum greinum.

Á vefnum Kvennaár 2025 er að finna allar upplýsingar um tilurð þessa verkefnis og dagskrá Kvennaársins 2025. Þar eru meðal annars kynntir viðburðir sem haldnir verða um allt land á árinu í tilefni þessara tímamóta. Óhætt er að hvetja öll til að kynna sér efni vefsins.

Fagfélögin færa þátttakendum í gær bestu þakkir fyrir fundinn. Við tekur vinna við að skipuleggja næstu skref til að halda upp á Kvennaár 2025 og ræða hvernig stuðla megi að auknu jafnrétti í karllægum atvinnugreinum.