Fréttir
Heimild til að skilyrða hlutfall hagkvæms húsnæðis

Heimild til að skilyrða hlutfall hagkvæms húsnæðis

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi um breytingar á skipulagslögum. Með nýju ákvæði fá sveitarfélög heimild til að skilyrða að hlutdeild hagkvæmra íbúða verði allt að 25% samkvæmt deiliskipulagi.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins en markmiðið með þessu er ða auka uppbyggingu hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði. Breytingarnar eru að sögn liður í aðgerðaáætlun á grunni rammasamnings ríkis og sveitarfélaga sem undirritaður var í júlí í fyrra um húsnæðisuppbyggingu um land allt. 

„Með rammasamningnum lögðum við fram mikilvæga framtíðarsýn til tíu ára um að stórauka uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Sérstök áhersla var lögð á að byggja hagkvæmar íbúðir, og stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu fólks. Liður í þessu er að gera sveitarfélögum kleift að gera kröfu um blöndun íbúðarhúsnæðis fyrir ólíkar þarfir,“ er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra.