Greinar
Grétar fagnar 85 árum í dag

Grétar fagnar 85 árum í dag

„Ég lít nú bara á þennan afmælisdag eins og hvern annan,“ segir Grétar Þorsteinsson, félagsmaður í Byggiðn og fyrrverandi formaður Trésmiðafélags Reykjavíkur, forvera Byggiðnar. Grétar fagnar í dag 85 ára afmæli sínu en þvertekur fyrir að um stórafmæli sé að ræða.

Grétar hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir byggingamenn í áraraðir og lætur engan bilbug á sér finna í þeim efnum. Hann varð formaður Trésmiðafélags Reykjavíkur 1978 og gegndi því hlutverki í 19 ár. Hann varð síðar forseti ASÍ í rúm 12 ár.

Grétar ræðir við Ingu Sæland, 4. október sl.

Grétar er mjög virkur í trúnaðarráði félagsins og starfi eldri félaga auk þess að sitja í nefndum fyrir Byggiðn. Hann var meðal annars hvatamaður þess að bjóða Ingu Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra til fundar við eldri félaga, á dögunum. Umfjöllun um þann fund má sjá hér.

Þegar Byggiðn sló á þráðinn til Grétars fyrr í dag hafði hann í nægu að snúast, eins og aðra daga. „Ég er á fullu í félagsstarfi, syng í karlakór og er í sönghóp, svo eitthvað sé nú talið upp,“ sagði Grétar áður en hann þurfti frá að hverfa.

Lengra viðtal við Grétar birtist í Afmælisblaði Byggiðnar, sem kom út í fyrra.

Byggiðn óskar Grétari til hamingju með daginn.