Byggiðn heimsótti byggingadeild VMA
Jón Bjarni Jónsson, formaður Byggiðnar heimsótti byggingadeild Verkmenntaskólans á Akureyri síðastliðinn miðvikudag. Hann átti þar samtöl við nemendur og kennara deildarinnar; þeirra á meðal við Helga Val Harðarson brautarstjóra.
Fyrir formanni vakir að efla tengslin við félagsfólk – ekki síst ungt fólk. Í viðtali á heimasíðu VMA er haft eftir Jóni Bjarna að honum þyki mikilvægt að miðla upplýsingum til nemenda um hvað Byggiðn gerir fyrir félagsfólk. „Eitt af fjölmörgu sem mikilvægt er að ungt fólk geri sér grein fyrir er munurinn á því að vera launþegi og verktaki,“ nefnir Jón Bjarni sem dæmi.
„Mér finnst mjög áhugavert að heyra sjónarmið nemenda og af hverju þeir eru að læra húsasmíði,“ er haft eftir honum í viðtalinu.
Umfjöllun um heimsóknina og viðtöl við brautarstjóra og nemendur verður að finna í sérstöku afmælisriti sem gefið verður út í nóvember. Tilefnið er 125 ára afmæli félagsins.
Þess má geta að nemendur í byggingadeild voru í óða önn að byggja sumarhús á lóð skólans, þegar Byggiðn bar að garði. Deildin hefur byggt hús á hverjum vetri undanfarin ár. Ekki var annað að sjá en byggingin gengi vel og að vandað væri til verka. Myndin hér að neðan var tekin á fyrri stigum verksins.
Myndir/Óskar Þór Halldórsson